Landsbankinn hefur að eigin frumkvæði fellt niður lán rúmlega 500 einstaklinga og um 30 lögaðila. Lánin voru tekin vegna kaupa fólks og fyrirtækja á stofnfé í Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga í loks árs 2007 áður en þeir voru sameinaðir Sparisjóðnum í Keflavík.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að ákvörðunin sé tekin í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 24. nóvember síðastliðnum þar sem stofnfjáreigendur sem tekið höfðu þátt í kaupum á stofnfé Byr og Sparisjóði Norðlendinga fengu lán sín felld niður.

Landsbankinn segir að farið hafi verið yfir dóma Hæstaréttar með tilliti til þeirra lána sem bankinn er kröfuhafi að og veitt voru til kaupa á sparisjóðunum.

Niðurfellingin er ekki án undantekninga, svo sem ef stofnfjárbréf hafa verið seld en andvirðinu ekki ráðstafað til greiðslu lánsins eins og samkomulag var um. Þær greiðslur sem lántakar hafa innt af hendir til Landsbankans eða SpKef vegna sömu lána verða endurgreidd. Bankinn ætlar að fara yfir öll stofnfjárlán og tilkynna hverjum og einum um niðurstöðuna.