Þrátt fyrir að kaupum Marel á Stork Food Systems, matvælaeiningu Stork NV, sé lokið halda afskipti Íslendinga af móðurfélaginu Stork NV áfram. Í Morgunkorni Glitnis segir að eftir að Marel yfirtók Stork Food Systems hafi LME selt hluti sína í Stork NV til London Acquisition sem stefnir að yfirtöku á móðurfélaginu Stork NV.

Landsbankinn og Eyrir hafa ákveðið að framlengja fjárfestingu sína í móðurfélaginu með því að fjárfesta 200 milljónir evra (18,0 milljarðar íslenskar krónir) í London Acquisition. Landsbankinn og Eyrir eiga því samtals 25% í eignarhaldsfélaginu utan um Stork NV á móti 75% eignarhlut fjárfestingafélagsins Candover, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.

Rótgróið hollenskt iðnaðarfyrirtæki Stork er rótgróið hollenskt iðnaðarfyrirtæki með 140 ára sögu. Síðastliðið haust var prenteining félagsins (Stork Print) seld út úr samstæðunni og í síðustu viku fylgdi matvælaeiningin í kjölfarið þegar kaup Marels á Stork Food Systems voru kláruð. Í dag samanstendur Stork samstæðan af iðnaðarþjónustueiningu (Stork Technical Services) og flugþjónustueiningu (Stork Aerospace) sem jafnframt teljast til kjölfestueininga félagsins. Í Morgunkorni Glitnis segir að heildarvelta Stork Aerospace á síðasta ári hafi numið 549 milljónum evra eða sem nam rúmlega fjórðungi af heildarveltu samstæðunnar á síðasta ári. Velta Stork Technical Services nam 868 milljónum evra sem samsvaraði tæplega 60% af heildarveltu Stork samstæðunnar á síðasta ári.

Gott tækifæri? Ljóst má vera að Landsbankinn og Eyrir sjá frekari tækifæri í Stork NV sem felast í uppskiptingu á félaginu. Undanfarin misseri hafa nokkur félög verið orðuð við hugsanlegar yfirtökur á Stork Aerospace. Spennandi hlutir eru að gerast hjá Stork Aerospace en á haustdögum gerði félagið 600 milljón dala samning við ónefndan alþjóðlegan flugvélaframleiðanda. Það verður áhugavert að fylgjast með Stork NV á næstu misserum og þessari fjárfestingu Landsbankans og Eyris í félaginu. Ef vel tekst til gæti fjárfestingin skilað hluthöfum félaganna góðri arðsemi, segir í Morgunkorni Glitnis.