Samkvæmt nýjasta hluthafalista FL Group er Landsbankinn skráður fyrir um 32,21% hlutafjár í félaginu. Landsbankinn er þó ekki eigendi að nema litlum hluta af þessu hlutafé heldur er hann fyrst og fremst að fjármagna þessa hluti fyrir stærstu eigendur félagsins í gegnum framvirka samninga.

Þann 6. júlí síðastliðinn flaggaði bankinn í FL Group þar sem eignarhlutur hans fór úr 8,48% upp í 31,08%. Um leið tilkynnti hann að hafa gert framvirka samninga við Katla Investments S.A um sölu á 17,68% hlut, og framvirkan samning um sölu á 2,46% hlutafjár til Baugs Group. Það kom til viðbótar öðrum framvirkum samningi sem bankinn hafði áður gert við Baug Group um sölu á 7,92%. Í tilkynningunni kom einnig fram að bankinn hefur gert framvirkan samning um sölu á 30,52% hlutafjár í FL Group og á því sjálfur einungis um 1,7% hlutafjár samkvæmt nýjasta hluthafalistanum. Réttir eigendur eru því meðal annars Katla Investments og Baugur Group.

Fyrsta verkefni nýstofnaðrar yfirtökunefndar hefur verið að fara yfir hvort yfirtökuskylda hafi stofnast á stærstu eigendur í FL Group og er von á niðurstöðu nefndarinnar nú í lok ágúst. Stærsti eigandi félagsins er Hannes Smárason, stjórnarformaður, sem rúmlega 35% hlutafjár í félaginu. Í nýsamþykktum verðbréfaviðskiptalögum frá Alþingi er nýtt ákvæði þess efnis að náin viðskiptatengsl á milli stærstu eigenda skráðra félaga geri þá yfirtökuskylda ef samanlögð eign þeirra fer yfir 40%. Náin viðskiptatengls teljast vera til staðar ef aðilar eiga saman eða eru ráðandi í eignarhaldsfélögum sem eiga síðan í skráðum félögum.

Um stuttan tíma nú í sumar var Hannes Smárason skráður fyrir um 40,4% hlut og því yfirtökuskyldur samkvæmt lögum. Það var þegar hann átti 35,5% hlut sinn í gegnum Oddaflug og 4,9% hlut í gegnum eignarhaldsfélag sitt Primus. Hlutur Primus hefur nú verið seldur.