Landsbankinn og Íslenskir aðalverktakar hafa undirritað samninga um endurfjármögnun langtímalána ÍAV og fjármögnun bankans á veltufjárþörf félagsins. Samtals er um að ræða lánasamninga að fjárhæð 4.000 milljónir króna. Landsbankinn er áfram helsti viðskiptabanki ÍAV en auk fyrrnefndra samninga mun Landsbankinn koma að fjármögnun á öðrum verkefnum félagsins til dæmis vegna uppbyggingar byggingarreita félagsins.

"Við óskum ÍAV farsældar í framtíðinni og þökkum félaginu það traust sem bankanum er sýnt, með því að styrkja enn frekar 50 ára farsælt samstarf félaganna. Bankinn horfir til þess með tilhlökkun að starfa áfram með Íslenskum aðalverktökum að verkefnum félagsins og þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er á vegum ÍAV," sagði Halldór J Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans í tilkynningu sem send var út af þessu tilefni.

Samhliða þessu voru undirritaðir samningar um sölu Landsbankans á hlut bankans í Eignarhaldsfélaginu AV ehf. til Eignarhaldsfélagsins Gás ehf, eignarhaldsfélags stjórnenda ÍAV, en bankinn eignaðist hlut í Eignarhaldsfélagi AV ehf. samhliða fjármögnun bankans á yfirtöku starfsmanna ÍAV á félaginu vorið 2003. Að þessum viðskiptum loknum eru ekki eignatengsl milli Landsbankans og ÍAV og er því í raun lokið umbreytingarferli ÍAV sem hófst í maí í fyrra með kaupum á hlut íslenska ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf.

?Við þökkum Landsbanka Íslands fyrir afbragðsgóða þjónustu og gott samstarf í því ferli umbreytinga sem félagið hefur farið í gegnum á sl. 12 mánuðum. Starfsmenn og eigendur Íslenskra aðalverktaka fagna því að Landsbankinn skuli auðsýna félaginu það traust sem þessir samningar bera vitni um og undirstrika með því áframhald á löngu farsælu samstarfi félaganna,." sagði Stefán Friðfinnsson forstjóri ÍAV að lokinni undirskrift samninganna í sömu tilkynningu.