Landsbanki Íslands og SÁÁ hafa gert samkomulag um að bankinn fjármagni húsnæði félagssamtakanna. Er annars vegar um endurfjármögnun á langtímalánum SÁÁ að fjárhæð 300 milljónir króna og hins vegar 200 milljón króna lán vegna nýbyggingar á lóð samtakanna við Efstaleiti í Reykjavík. Með samningum þessum lækkar fjármagnskostnaður SÁÁ. Með nýbyggingu við Efstaleiti næst hagræðing og lækkun rekstrarkostnaðar þar sem dreifð starfsemi samtakanna verður færð undir sama þak. Göngudeildarþjónusta og skrifstofa og félagsstarf samtakana munu flytja í hið nýja húsnæði.

Tilgangur Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann er m.a. að starfrækja afvötnunar- og endurhæfingarstöðvar og göngudeildarþjónustu fyrir alkóhólista og aðra vímuefnamisnotendur ásamt með fræðsluþjónustu og meðferð fyrir aðstandendur alkóhólista og annarra vímuefnamisnotenda.

Á meðfylgjandi myndum frá undirritun samninga eru frá vinstri Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, Davið Björnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landbankans, Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Oddur Hjaltason formaður byggingarnefndar SÁÁ, Þórarinn Tyrfingsson formaður SÁÁ, Arnþór Jónsson, varaformaður SÁÁ, Ásgerður Th. Björnsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Gunnar Kvaran framkvæmdastjóri félags- og útbreiðslusviðs.