Landsbankinn tekur þátt í að fjármagnan nýjan skemmtigarð sem opnar í verslunarmiðstöðinni Smáralind í næsta mánuði. Áætlaður kostnaður við skemmtigarðinn nemur um 600 milljónum króna.

Skemmtigarðurinn verður þar sem Vetrargarðurinn var áður. Hann var hannaður af alþjóðlega hönnunarfyrirtækinu KCC sem hlotið hefur verðlaun fyrir hönnun og uppbyggingu skemmtigarða innanhúss. Fyrirtækið hefur hannað fjölda skemmtigarða víða um heim t.a.m. í Dubai, Kína, Rússlandi og Bandaríkjunum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum.

Framkvæmdir við skemmtigarðinn í Smáralind hófust í sumar og var skrifað undir fjármögnunarsamning á milli Landsbankans og rekstrarfélags skemmtigarðsins 14. október síðastliðinn.

Skemmtigarðurinn verður á tveimur hæðum á um 2000 fermetra svæði. Hann mun opna í nóvember og er gert ráð fyrir því að starfsmenn verði um 60.