Landsbankinn hefur skrifað undir fjármögnunarsamning við Thor Data Center, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum.  Þar segir að lánið muni nýtast til frekari uppbyggingar félagsins við kaup á nýjum gagnagámi.

„Gagnaver Thor Data Center byggist á sérútbúnum  gámaeiningum sem  hýsa gögn og gagnavinnslu fyrirtækja.  Að loknum þessum áfanga mun afkastageta gagnvers Thor Data Center  margfaldast og mun félagið geta annað hýsingarþörf fleiri stórra fyrirtækja.

Thor Data Center var stofnað árið 2009 og var gagnverið tekið í notkun  vorið 2010. Thor Data Center  er eina gagnaverið sem starfrækt er á Íslandi og byggir þjónusta þess á umhverfisvænni raforku.  Meðal helstu viðskiptavina Thor Data Center er norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Guðmundar Gíslasonar, stjórnarformanns Thor Data Center, var leitað til nokkurra fjármálafyrirtækja eftir fjármagni til áframhaldandi uppbyggingar á félaginu, en hingað til hefur það verið fjármagnað með framlagi hluthafa. „Landsbankinn var með besta tilboðið í þessa fjármögnun og það var líka greinilegt að starfsmenn bankans hafa trú á verkefninu sem skiptir ekki síður máli.“

Árni Þór Þorbjörnsson framkvæmdarstjóri Fyrirtækjabanka Landsbankans, segir; „Það er stefna Landsbankans að vera hreyfiafl í íslensku samfélagi og leggja fram fjármagn til arðbærra verkefna í nýrri sókn atvinnulífsins. Það er ánægjulegt að Landsbankinn hafi tekið þátt í þessu verkefni, Thor Data Center er ört vaxandi  og samkeppnishæft félag sem byggir starfsemi sína á nýtingu á umhverfisvænni raforku.“