*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. febrúar 2006 16:56

Landsbankinn fær 1,1 milljarð í arð frá Carnegie

Ritstjórn

Fjárfestingabankinn Carnegie, sem Landsbanki Íslands á 20,4% hlut í, skilaði ársuppgjöri sínu fyrr í dag og var það besta afkoma bankans frá upphafi segir í Hálffimm fréttum KB banka. Fram kemur í tilkynningu frá Carnegie að stjórn félagsins leggi til að arðgreiðslur nemi 76,2 krónum á hlut eða 5.075 milljónum króna í heildina. Landsbankinn fær því tæplega 1,1 milljarði íslenskra króna.

Alls námu tekjur Carnegie 3.514 milljónum sænskra króna á árinu 2005 og þar af voru tekjur bankans 1.213 milljónir sænskra króna á fjórða fjórðungi ársins. Eru þetta langmestu tekjur á einum fjórðungi en næst á eftir kemur þriðji fjórðungur 2005 með 847 milljónir sænskra króna. Tekjur Carnegie á árinu 2005 jukust um 32% frá fyrra ári. Ef horft er á tekjur fjórðungsins þá jukust tekjur félagsins um 51% frá fyrra ári. Hagnaður ársins 2005 var 667 milljónir sænskra króna og er 66% hærri en árið áður þegar hagnaðurinn nam 401 milljón sænskra króna. Hagnaður ársins er því 9,98 sænskar krónur á hlut en var 6,01 á árinu 2004. Arðsemi eigin fjár Carnegie hækkar úr 34% á milli ára og var 49% árið 2005.

Markaðurinn virðist hafa tekið þessari niðurstöðu vel því bréf Carnegie hækkuðu um 1,88%, eða 2,5 sænskar krónur á hlut, í kauphöllinni í Stokkhólmi í dag.