Landsbankinn færði SÍBS, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, gjöf að upphæð kr. 2.000.000, í tilefni af 40 ára afmæli Árbæjarútibús Landsbankans í dag.

Það var Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sem færði fulltrúum SÍBS gjöfina í dag á afmælishátíð útibúsins. SÍBS fagnar sömuleiðis tímamótum í ár en í haust verða 70 ár liðin frá stofnun sambandsins.

Árbæjarútibú Landsbankans tók til starfa fyrir 40 árum. Útibúið var lengst af starfrækt í Hraunbæ en fluttist í lok árs 2005 í ný og glæsileg húsakynni að Kletthálsi 1. Átján starfsmenn starfa í útibúinu sem veitir víðtæka og öfluga fjármálaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum.

Starfsmenn Árbæjarútibús buðu viðskiptavinum og gestum og gangandi í opið hús í dag í tilefni stórafmælisins. Þar komu fram söngvarar, dansarar, fimleikafólk auk þess sem Sproti kíkti í heimsókn.