Landsbankinn og slitastjórn LBI hf. gerðu í gær samkomulag sem felur m.a. í sér að Landsbankinn fyrirframgreiði á þessu ári skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, en þau eru á gjalddaga í október 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Þá mun Landsbankinn fyrirframgreiða að hluta skuldabréf sem eru á  gjalddaga í október 2017. Nemur fjárhæð fyrirframgreiðslunnar um 47 milljörðum króna.

Samkomulagið er háð þeim fyrirvara að Landsbankinn nái að fjármagna fyrirframgeiðsluna á kjörum sem bankinn telur ásættanleg, en það er gert með hliðsjón af tillögum tiltekinna kröfuhafa LBI sem settar voru fram í tengslum við áætlun um losun fjármagnshafta.

Til þess að vinna að framangreindri endurfjármögnun og til þess að breikka og styrkja fjármögnun bankans hefur Landsbankinn ráðið fjárfestingabankana Citi, Deutsche Bank og J.P. Morgan til þess að skipuleggja fjárfestafundi í Evrópu. Hefjast þeir mánudaginn 21. september næstkomandi og kann útgáfa á skuldabréfum í evrum að fylgja í kjölfarið.