Landsbankinn hefur gefið út nýtt snjallforrit sem viðskiptavinir geta notað í stað greiðslukorts. Með því er hægt að nota símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu í snertilausum posum um allan heim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Kortaapp Landsbankans – Kort – er aðgengilegt í Google Play Store. Fyrst um sinn verður appið aðeins í boði fyrir farsíma með Android-stýrikerfi. Farsímum með iOS-stýrikerfi er sagt verða bætt við um leið og Apple opni fyrir greiðslur með farsímum á Íslandi.

Appið er þróað af VISA og hefur verið í notkun í Bandaríkjunum og víðar um nokkurt skeið. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður upp á þessa þjónustu og með þeim fyrstu í Evrópu.

Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Nýja kortaappið er örugg og hraðvirk leið til að greiða. Við hvetjum fólk til að koma í viðskipti í gegnum Landsbankaappið og prófa bæði kortalausnina og þær fjölmörgu nýjungar sem við höfum sett í loftið undanfarið.“

Reiknað er með að prófunum á kortaappinu ljúki í næstu viku. Meðan á prófunum stendur er ekki öruggt að allir snertilausir posar taki við greiðslum með appinu og í sumum tilvikum taka þeir aðeins við greiðslum sem eru undir 5.000 krónum. Ný uppfærsla er sögð væntanleg á næstu dögum og verði upphæðamörk þá fjarlægð og ekkert hámark á greiðslum með símanum.