Landsbankinn hefur gefið út skuldabréf í Evrópu á nýjan leik, en síðast gaf bankinn út skuldabréf á þessum markaði haustið 2005. Stærð útgáfunnar er 500 milljónir evra, sem samsvarar til 43 milljarða íslenskra króna. Útgáfan er til fimm ára og kjör hennar eru 26 punktum yfir evrópskum millibankavöxtum (euribor).

Brynjólfur Helgason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Landsbankans, segir að mikill eftirspurn hafi verið meðal fjárfesta eftir útgáfunni. "Fjárfestar skráðu sig fyrir um það bil einum milljarði evra sem er helmingi meira en við gáfum út," segir Brynjólfur. " Þessi útgáfa kemur í kjölfar viðurkenningar, sem sambankalán Landsbankans til þriggja ára að upphæð 600 milljón evra fékk fyrir nokkrum dögum, frá tímaritinu The Banker. Sambankalánið þótti best heppnaða lántaka íslensks banka á síðasta ári," segir Brynjólfur.Hann segir jafnframt að um sé að ræða fyrstu skuldabréfaútgáfuna í evrum í langan tíma. "Ástæðan er fremst það umrót sem einkenndi allt síðasta ár í kjölfar mikillar neikvæðrar umræðu um bankanna," segir hann.

Þegar mótlætið var sem mest í Evrópu leituðum við á ný mið til Bandaríkjanna þar sem við vorum með stóra útgáfu á síðasta ári. Í Evrópu vorum við hinsvegar með sambankalánið í júlí og víkjandi lán í febrúar sem er önnur tegund fjármögnunar sem lýtur öðrum lögmálum. Okkur hefur auk þess ekki legið mikið á að gefa út í Evrópu þar sem við höfum getað treyst mikið á innstreymi innlána í fjármögnun bankans sérstaklega í gegnum starfsemina í Bretlandi," segir Brynjólfur og vísar þar í Icesave sparnað Landsbankans í Bretlandi sem hefur slegið í gegn. "Eins og sjá má í uppgjöri okkar fyrir fyrsta ársfjórðung þá eru innlán sem hlutfall af heildarútlánum komið upp í 62% en var í 39% í lok síðasta árs. Icesave skiptir þarna sköpum en í lok fyrsta ársfjórðungs voru innlánin í gegnum Icesave komin upp í 2,5 milljarða punda sem samsvarar til 320 milljarða króna en þau voru 790milljónir punda í árslok 2006 " segir Brynjólfur.

Hann segir að samhliða góðu gengi í innlánum bankans sé lausafjárstaðan með besta móti. "Við vorum búnir að tryggja endurfjármögnun þessa árs fyrir síðustu áramót og erum með mjög létta endurfjármögnun á næsta ári. Þannig að staða okkar er mjög góð um þessar mundir og hefur í raun sjaldan verið betri. Megintilgangur útgáfunnar er því fyrst og fremst lengja endurgreiðsluferil, styrkja lausafjárstöðu enn frekar, minna á okkur og staðfesta góða stöðu Landsbankans á markaði," segir Brynjólfur.
Aðspurður hvort að meiri útgáfu sé að vænta á árinu segir Brynjólfur að það verði háð aðstæðum á markaði hverju sinni. "Áætlanir okkar gera ráð fyrir að við gefum út fyrir 1,5 milljarð evra, en sú upphæð verður ekki gefin út eingöngu á Evrópumarkaði heldur víðar. Þannig að ekki er um að ræða mjög háar upphæðir á alþjóðlegan mælikvarða heldur frekar fleiri smærri útgáfur í Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu og jafnvel Ástralíu," segir Brynjólfur að lokum.