Landsbankinn gaf út skuldabréf að verðmæti 300 milljónir evra eða 43 milljörðum króna í dag. Skuldabréfin voru seld til fagfjárfesta og bárust tilboð fyrir 470 milljónir evra frá tæplega 60 fjárfestum. Skuldabréfin munu vera skráð í kauphöllina á Írlandi. Bréfin eru til þriggja ára og bera fasta 3% vexti. Þetta segir í tilkynningu frá bankanum.

Andvirði útgáfunnar mun verða nýtt til þess að fyrirframgreiða veðtryggð skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum sem eru á gjalddaga í október 2016 og að hluta skuldabréf sem eru á gjalddaga í október 2018. Bankinn er að vinna í því að breikka fjármögnun bankans í erlendum gjaldmiðlum meðal annars í þeim tilgangi að endurfjármagna útistandandi veðtryggð skuldabréf bankans á hagstæðari kjörum.