Landsbankinn hefur lokið við 300 milljón kanadadollara (18,1 milljarður króna) skuldabréfaútgáfu (e.Maple Bond) á föstum vöxtum í Kanada á gjalddaga í janúar 2010, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Yfirumsjón með lántökunni var á höndum HSBC en aðrir umsjónaraðilar voru CIBC og National Bank of Canada. Ávöxtunarkrafa bréfanna er 4.40% og miðast við álag á kanadísk ríkisskuldabréf.

Lántakan fylgir í kjölfar fjárfestakynninga Landsbankans í Kanada og er hún gefin út sem hluti af reglulegri fjármögnun bankans undir EMTN-ramma bankans. Þetta er jafnframt fyrsta skuldabréfaútgáfa Landsbankans til kanadískra fjárfesta.

Skuldabréfaútgáfan er hluti af stefnu bankans um að fjölga stoðum í erlendri fjármögnun og bæta landfræðilega dreifingu samhliða því að ná til breiðari hóps erlendra fjárfesta.

Í tilkynningunni segir að lántakan staðfesti jafnframt gott aðgengi Landsbankans að fjármálamörkuðum og beri vott um það traust sem kanadískir fjárfestar hafa á bankanum og langtímastefnu hans.