Samið hefur verið um að Landsbankinn (NBI hf.) gefi út 247 milljarða króna skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. (gamla Landsbankans).

Þetta kemur fram í stofnhagsreikningi Landsbankans sem nú hefur verið birtur en skuldabréfið er í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára og, af því verða aðeins greiddir vextir fyrstu fimm árin.

„Með þessu er Landsbankanum tryggð erlend fjármögnun sem miklu mun skipta fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum en þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 milljarðar króna sem svarar til 20% heildarhlutafjár Landsbankans.

„Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna samsvarar mati Landsbankans á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar,“ segir í tilkynningunni.

„Fari svo að verðmæti yfirfærðra eigna reynist meira en mat Landsbankans gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til þrotabús Landsbanka Íslands hf. sem gæti numið allt að 92 milljörðum króna, en þess í stað fengi ríkissjóður áðurnefnd hlutabréf að fjárhæð 28 milljarðar til baka. Óháður aðili mun annast lokamat á verðmæti eignanna í árslok 2012.“

Þá kemur fram að stofnefnahagsreikningur Landsbankans er stærsti efnahagsreikningur þeirra þriggja banka sem endurreistir hafa verið. Heildareignir eru 944 milljarðar króna, þar af nema útlán til viðskiptavina bankans um 608 milljörðum króna, eiginfjárframlag íslenska ríkisins er 122 milljarðar, lausafé 39 milljarðar, hlutabréfaeign 30 milljarðar og skuldabréfaeign 24 milljarðar.

Dreifing á útlánasafni bankans skiptist þannig að um 78% þeirra eru til fyrirtækja en um 22% til einstaklinga. Um 26% útlána eru til sjávarútvegsfyrirtækja, um 15% tengjast fasteignaviðskiptum, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Rétt 9,4% lána eru til eignarhaldsfélaga og rúmlega 26% lána eru til annarra atvinnugreina.

Innlán viðskiptavina nema í stofnefnahagnum um 462 milljörðum króna. Innlán fjármálastofnana eru um 85 milljarðar króna og þá nemur upphæð skuldabréfs vegna yfirtöku lána úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. um 247 milljörðum króna.