Samkeppniseftirlitið hefur gert sátt við Landsbankann um aðgerðir til að efla samkeppni í viðskiptabankaþjónustu. Þær aðgerðir sem samið er um miða einkum að því að: Í fyrsta lagi að draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um banka, í öðru lagi að stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi af hálfu einstaklinga og lítilla fyrirtækja og í þriðja lagi að vinna gegn aðstæðum sem gætu rent stoðum undir þögla samhæfingu á mörkuðum fyrir viðskiptabankaþjónustu.

Sáttin sem hér er kynnt felur enn fremur í sér innlegg í stefnumörkum sem stjórnvöld og bankarnir standa nú frammi fyrir á fjármálamarkaði í tengslum við breytingar á eignarhaldi bankanna og öra þróun í fjármálaþjónustu á alþjóða vettvangi að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Landsbankinn var fyrstur bankanna til að ljúka framangreindum viðræðum við Samkeppniseftirlitið. Viðræður við Arion banka og Íslandsbanka eru á lokastigi.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir við tilefnið: „Það er mikilvægt að fólk og fyrirtæki gæti þess að leita ætíð bestu kjara og skilmála miðað við sínar þarfir. Með því er veitendum fjármálaþjónustu skapað aukið aðhald sem skilar sér í virkari samkeppni þeirra á milli. Þau skilyrði sem fram koma í sáttinni við Landsbankann eiga m.a. að leiða til þess að auðveldara verði fyrir viðskiptavini að veita slíkt aðhald.“