Fari svo að rekstur Húsasmiðjunnar gangi betur en áætlanir hljóðuðu upp á þegar Framtakssjóðurinn seldi hana dönsku byggingavörukeðjunni Bygma í kringum síðustu áramót þá mun Bygma greiða meira fyrir félagið.

Gamla Húsasmiðjan heitir í dag Holtavegur 10 og er félagið í eigu félagsins Hamla. Hömlur voru áður í jafnri eigu Framtakssjóðsins og Landsbankans. Landsbankinn á nú félagið allt.

Þetta kemur fram í umfjöllun Vísis um nýbirtan ársreikning Holtavegs 10.

Landsbankinn tók Húsamiðjuna yfir í október árið 2009, afskrifaði hlutafé og breytti 10,2 milljarða skuldum, 70% af heildarskuldum félagsins, í hlutafé. Félagið fór frá Landsbankanum inn í Vestia, sem Framtakssjóðurinn keypti. Sjóðurinn seldi svo Húsasmiðjuna um áramótin til Bygma. Í janúar breytti Landsbankinn svo einum milljarði króna til viðbótar af skuldum Húsasmiðjunnar í nýtt hlutafé. Við það eignaðist Hömlur, félaga Landsbankans, hlut í Húsasmiðjunni.

Bygma keypti Húsasmiðjuna á 760 milljónir króna auk þess að taka yfir skuldir upp á 2,5 milljarða króna af 5,9 milljarða skuldum. Í umfjöllun Vísis er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa Landsbankans, að gangi rekstur Húsasmiðjunnar betur en áætlað var komi viðbótargreiðsla fyrir reksturinn. Sú viðbót myndi renna til Landsbankans, í gegnum Hömlur. Útfærslan er með kauprétti og kaupskyldu á fyrirfram ákveðnu verði og því kemur ekki til þess að Holtavegur 10, Hömlur eða Landsbankinn eigi þriðjungshlut í Húsasmiðjunni til langframa,“ segir í frétt Vísis um málið.