Bankaráð Landsbankans leggur til að bankinn greiði hluthöfum sem nemur 0,42 krónum á hlut vegna afkomunnar í fyrra. Þetta svarar til 39% af hagnaði síðasta árs. Landsbankinn hagnaðist um 25,5 milljarða króna árið 2012 og jafngildir arðgreiðslan því 9.945 milljónum króna.

Fram kemur í tillögum bankaráðsins fyrir aðalfund Landsbankans sem haldinn verður í dag að miða skuli við hlutaskrá í lok 30. september næstkomandi og að arðurinn verði greiddur út 1. október.

Í kjölfar breytinga á eignarhaldi á Landsbankanum í kjölfar undirritunar á svokölluðu skilyrtu skuldabréfi bankans eignaðist íslenska ríkið 98% hlut í honum og starfsmenn 2%. Miðað við þetta nemur arðgreiðslan til ríkisins rúmum 9.700 milljónum króna. Hlutur starfsmanna nemur 199 milljónum króna.