Landsbankinn greiðir eigendum sínum tæpa 10 milljarða króna í dag. Þetta er fyrsta skiptið sem bankinn greiðir arð síðan ríkið tók gamla bankann yfir haustið 2008 og reisti nýjan banka við. Arðgreiðslan nemur 39% af hagnaði Landsbankans í fyrra.

Íslenska ríkið á 98% hlut í Landsbankanum.

Fram kemur í auglýsingu Landsbankans um arðgreiðsluna í fjölmiðlum í dag að hagnaður Landsbankans hafi lagst við eigið fé hans undanfarin ár. Eigið fé bankans er nú orðið mjög hátt eða tæpir 230 milljarðar króna, sem sé langt umfram lágmarkskröfur. Bankinn hafi af þeim sökum verulegt svigrúm til arðgreiðslna.

Leiðrétting

Breyting varð á eignarhaldi Lansbankans frá og með 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf. færðist yfir til íslenska ríkisins. Íslenska ríkið á nú 98% í bankanum en Landskil ekkert. Í morgun sagði á VB.is að ríkið ætti rúman 81% hlut í bankanum Landskil, eignarhaldsfélag slitastjórnar gamla bankans, í kringum 18% hlut í honum.