*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 18. mars 2015 18:00

Landsbankinn greiðir 23 milljarða í arð

Á aðalfundi Landsbankans í dag var samþykkt heimild til kaupa á allt að 10% eigin bréfa.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Á aðalfundi Landsbankans í dag var samþykkt tillaga stjórnar um greiðslu arðs sem nemur 80% af hagnaði bankans í fyrra. Hagnaður bankans í fyrra nam 28,8 milljörðum króna og mun arðgreiðslan því nema rétt rúmum 23 milljörðum króna. Arðgreiðslur bankans fyrir árin 2012, 2013 og 2014 nema því samtals tæpum 54 milljörðum króna. Þá var samþykkt heimild til handa bankanum til kaupa á allt að 10% af eigin hlutafé, en fyrir á bankinn 1,3%. Í ræðu Tryggva Pálssonar, formanns bankaráðs bankans á aðalfundi sagði að heimildin gæfi kost á því að meta síðar á árinu hvort unnt sé að færa meira fé til eigenda.

Hann sagði að arðsemi bankans hafi vissulega verið há undanfarin ár en að drjúgur hluti af hagnaðinum skýrist af virðisbreytingum útlána, gengishagnaði, hagnaði af eignum á markaði og sölu eigna. Viðbúið sé að þessir liðir skili litlu á næstu árum og því séu allar horfur á að arðsemi bankans minnki.

„Þegar stórum einskiptisliðum sleppir þá var arðsemin á liðnu ári um 5-6% sem er of lágt. Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum,“ sagði Tryggvi í ræðu sinni.