Landsbankinn hagnaðist um 18,2 milljarða króna á árinu 2019 en hagnaður bankans dróst saman um 1,1 milljarð milli ára. Hagnaður bankans á fjórða ársfjórðungi 2019 nam tæplega 3,9 milljörðum og jókst lítillega milli ára. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 7,5% og lækkað um 0,7 prósentustig á milli ára.

Rekstartekjur bankans á árinu 2019 námu 51,5 milljörðum og drógust saman um 2,4 milljarða milli ára. Þar af námu hreinar vaxtatekjur 39,7 milljörðum og drógust saman um 1,1 milljarð. Hrein virðisbreyting var neikvæð um 4,8 milljarða á árinu 2019 en var jákvæð um tæplega 1,4 milljarða árið 2018. Hreinar þjónustutekjur námu 8,2 milljörðum á árinu og jukust lítillega milli ára.

Rekstarakostnaður var 24 milljarðar og jókst lítillega milli ára en kostnaðarhlutfall bankans lækkaði um 2,9 prósentustig á milli ára niður í 42,6%.

Útlán bankans jukust um 76 milljarða króna á árinu en eignir í árslok námu 1.426,3 milljörðum og jukust um 90 milljarða milli ára. Eigið fé nam 247,7 milljörðum en eiginfjárhlutfall bankans var 25,8% í lok árs og hækkaði um 0,9 prósentustig en það er töluvert yfir eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins sem er 20,5%.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að bankaráð muni leggja til að arðgreiðsla vegna ársins 2019 muni nema 9,5 milljörðum eða um 52% af hagnaði ársins 2019. Íslenska ríkið er stærsti eigandi Landsbankans með 98,4% hlut.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:

„Landsbankinn hefur verið í sókn sem endurspeglast í aukinni ánægju viðskiptavina og sterkri markaðsstöðu, ásamt traustum og stöðugum rekstri.

Aukin hagræðing í rekstri og stöðugar aðhaldsaðgerðir eiga stærstan þátt í að rekstrarkostnaður stóð nánast í stað á milli ára, þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði töluvert á milli ára og var 42,6% í lok árs 2019. Arðsemi eiginfjár var 7,5% en 9,2% ef litið er framhjá áhrifum af bankaskatti.

Mikilvægasti þátturinn í starfsemi Landsbankans er sambandið við viðskiptavini. Það er einkar góð byrjun á árinu 2020 að bankinn var í efsta sæti í Íslensku ánægjuvoginni sem byggir á könnun sem gerð var seinni hluta árs 2019 og mælir heildaránægju viðskiptavina. Við leggjum í senn mikla áherslu á persónulegt sambandi við viðskiptavini okkar og á framþróun og útgáfu stafrænna lausna. Með stafrænni þjónustu gerum við bankaþjónustu aðgengilegri og auðveldari. Með persónulegri þjónustu tryggjum við að viðskiptavinir fái trausta fjármálaráðgjöf og aðstoð þegar á reynir.

Starfsfólk bankans hefur nýtt vel þau tækifæri sem hafa gefist til að efla viðskiptasambönd og á árinu 2019 buðum við fjölmarga nýja viðskiptavini velkomna. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Við erum stolt af því að hafa stutt við yfir eitt þúsund fjölskyldur og einstaklinga sem voru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum en bankinn var með 38% hlutdeild í íbúðalánum til fyrstu kaupa á árinu. Landsbankinn veitir samkeppnishæf kjör þar sem því verður við komið en það er öllum ljóst að erfitt er að keppa um kjör við aðila sem búa við lægri álögur en bankinn. Skattheimta á stærri fjármálafyrirtæki, sem jafnframt er mun meiri en í nágrannalöndunum, skekkir samkeppnisstöðuna verulega og kemur niður á kjörum til viðskiptavina. Landsbankinn mun áfram vinna að því að lækka rekstrarkostnað en stærstu tækifærin til þess liggja í áframhaldandi stöðlun og einföldun á sameiginlegum innviðum fjármálakerfisins.

Sem fyrr er mikill hugur í Landsbankafólki sem vinnur nú ásamt stjórn bankans að því að móta nýja framtíðarstefnu fyrir bankann sem kynnt verður á haustmánuðum. Ný stefna bankans mun snúa að því hvernig við treystum samband okkar við viðskiptavini enn frekar og höldum áfram að skila góðri og samkeppnishæfri rekstrarniðurstöðu.“