Slitastjórn Landsbanka Íslands greiddi fyrr í mánuðinum út hlutagreiðslur til forgangskröfuhafa. Var það í þriðja sinn sem það er gert. Samtals var greitt út jafnvirði 82 milljarða króna, að því er Landsbankinn greinir frá í tilkynningu. Samtals hefur slitastjórnin greitt út 677 milljarða króna frá því í desember á síðasta ári, sem svarar til um 50% af fjárhæðum forgangskrafna.

Upphæðin endurspeglar heildargreiðslur, þar með taldar greiðslur inn á lögboðna geymslureikninga vegna krafna sem enn eru umþrættar. Að jafnvirði um 16 milljarða króna hafa runnið til baka til þrotabúsins vegna krafna sem var endanlega hafnað. Næsti kröfuhafafundur Landsbanka Íslands verður haldinn 28. nóvember næstkomandi.