Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans eiga um 50 milljónir króna af tæplega 10 milljarða króna arðgreiðslu sem bankinn greiðir í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn greiðir út arð síðan ríkið tók bankann yfir í bankahruninu haustið 2008. Íslenska ríkið á nú 98% hlut í bankanum, starfsmenn um 0,5% og bankinn sjálfur það sem út af stendur. Þetta merkir að íslenska ríkið fær tæpa 9,8 milljarða króna af heildararðgreiðslunni.

Starfsmenn Landsbankans eignuðust hlut í bankanum sem metinn var á 4,7 milljarð króna í sumar og var það í samræmi við samkomulag frá 14. desember árið 2009. Hlutabréfin voru afhent starfsmönnum Landsbankans og Landsbréfa sem voru fastráðnir þann 31. mars 2013 og þeim sem látið hafa af störfum vegna aldurs, örorku eða verið sagt upp í hagræðingarskyni.

Meðalgreiðslan 25-30 þúsund krónur

Starfsmenn Landsbankans sem eiga rétt á arðgreiðslu fá ekki allan eignarhlutinn afhentan á þessu ári. Af þeim sökum fá þeir um 50 milljónir króna greiddar nú. Hlutabréfin dreifast á 1.400 starfsmenn Landsbankans og falla því rétt 25 til 30 þúsund krónur að meðaltali í hlut hvers starfsmanns að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Af upphæðinni á hins vegar eftir að greiða skatta og gjöld eins og við á um aðrar arðgreiðslur.

Samkvæmt samkomulaginu mega þeir starfsmenn Landsbankans sem fengu hlutabréfin ekki selja þau í þrjú ár frá afhendingu. Verði hlutabréf skráð í kauphöll má selja 60% þeirra en þó ekki fyrr en mánuði eftir skráningu. Þau bréf sem eftir standa (40%) má ekki selja í þrjú ár frá afhendingu. Að auki er óheimilt að veðsetja hlutabréfin á þeim tíma sem ekki má framselja þau.

Árétting

Starfsmenn Landsbankans eiga í dag 121.323.333 hluti í bankanum af 24.000.000.000 hlutum eða 0,5%. Arður er kr. 0,42 á hvern hlut. Arðgreiðsla til starfsmanna nemur því kr. 50.955.800.  Fjármagnstekjuskattur er 20%. Af 50.955.800 fara því kr. 10.191.160 í skatt og kr. 40.764.640 til starfsmanna.