Heimildarmaður írska blaðsins The Irish Times segir að kaupverðið sem Landsbanki Íslands hefur samþykkt að greiða fyrir írska fjármálafyrirtækið Merrion Capital geti hækkað um tæplega 15 milljónir evra, eða rúmlega milljarð króna, ef rekstur félagsins er í takt við eða yfir væntingum.

Blaðið bendlar Landsbankann einnig við írska arm breska fjármálafyritækisins Nationwide og IIB Bank og telur Landsbankann vera hugsanlegan kaupanda að félögunum ef þau væru til sölu.

Landsbankinn samþykkti að kaupa 50% hlut í Merrion fyrir 27,65 milljónir evra og að eignast allt hlutafé í félaginu fyrir árið 2008. Heildarkaupverðið nemur 55,3 milljónum evra, eða rúmlega fjórum milljörðum íslenskra króna, og tengist það rekstrarafkomu Merrion.

Heimildarmaður The Irish Times segir að heildarkaupverðið geti náð 70 milljónum evra, eða rúmlega fimm milljörðum, ef afkoma félagsins stenst eða er yfir væntingum.

Söluvirði eignarhlutar stjórnenda Merrion er talið vera á bilinu 30-40 milljónir evra (2,2-2,9 milljarðar króna).

The Irish Times segir að söluvirðið sé 31 milljón evra en Financial Times segir stjórnendurna fá um 40 milljónir evra fyrir eignarhlutinn. Um 55 af 75 starfsmönnum Merrion áttu hlut í félaginu en sjö æðstu stjórnendur þess hagnast mest af viðskiptunum.

Bandaríska fjámálafyrirtækið Allen & Co keypti 30% hlut í Merrion fyrir þrjár milljónir evra árið 1999 en fyrirtækið hefur samþykkt að selja Landsbankanum 17% hlut í félaginu fyrir 9,4 milljónir evra.

Forstjóri Merrion, John Conroy, sagði á blaðamannafundi í Dublin í síðustu viku að hann reiknaði með að Allen & Co myndi selja afganginn, eða 13%, á næstu þremur árum en bætti við að það væri þó alls ekki víst.

Merrion er þriðja erlenda verðbréfafyrirtækið sem Landsbankinn kaupir á þessu ári. Í vor keypti bankinn breska fyrirtækið Teather & Greenwood og nú nýlega evrópska fyrirtækið Kepler Equities, sem er með höfuðstöðvar í París.