Landsbankinn hefur tilkynnt, síðastur viðskiptabankanna, um hækkun vaxta í kjölfar stýrivaxtahækkunarinnar í síðustu viku. Breytingarnar taka gildi á morgun.

Landsbankinn hækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,85 prósentustig og verða þeir nú 6,25%. Til samanburðar ákváðu bæði Íslandsbanki og Arion banki að hækka sína breytilega óverðtryggðu íbúðalánavexti um eina prósentu.

Fastir vextir nýrra óverðtryggðra íbúðalána hjá Landsbankanum hækka um 0,20-0,35 prósentustig. Fastir vextir nýrra verðtryggðra íbúðalána hækka um 0,20 prósentustig en breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum verða óbreyttir.

Þá hækka kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,85 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir.

„Breytilegir vextir á grænum bílalánum vegna rafbíla hækka um 0,25 prósentustig og sem fyrr greiða lántakar engin lántökugjöld vegna rafbíla. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,85 prósentustig.“

Yfirdráttarvextir Landsbankans hækka um 1,0 prósentustig og vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um allt að 1,0 prósentustig. Vextir almennra veltureikninga hækka um 0,20 prósentustig.