Landsbankinn tilkynnti áðan um vaxtahækkun í kjölfar 100 punkta stýrivaxtahækkun Seðlabankans fyrr í mánuðinum. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum Landsbankans hækka um 0,70 prósentustig og verða 5,40%. Ný vaxtatafla Landsbankans tekur gildi á morgun.

Fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána hækka um 0,10-0,15 prósentustig. Fastir óverðtryggðir vextir á þriggja ára íbúðaláni verða 5,85%-6,05% eftir veðsetningarhlutfalli.

Landsbankinn gerir engar breytingar á vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, hvorki breytilegum né föstum.

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,70 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,70 prósentustig. Þá hækka yfirdráttarvextir um 1,0 prósentustig.

Vextir á óverðtryggðum sparireikningum Landsbankans hækka um allt að 1,0 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,10 prósentustig.

Sjá einnig: Arion hækkar vexti

Arion banki hækkaði vexti á föstudaginn en Íslandsbanki á enn eftir að bregðast við vaxtahækkun Seðlabankans.