Landsbanki Íslands hyggst hækka vexti frá og með morgundeginum, 17. nóvember. Fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir munu hækka um 0,15-0,2 prósentustig en breytilegir óverðtryggðir vextir á íbúðalánum verða óbreyttir, eða 3,5%. Frá þessu er greint á heimasíðu Landsbankans.

Sjá einnig: Íslandsbanki hækkar vexti

Fastir óverðtryggðir vextir íbúðalána til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir óverðtryggðir vextir íbúðalána til 60 mánaða hækka um 0,2 prósentustig. Fastir vextir til 36 mánaða vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,15 prósentustig. Aðrir útlánsvextir verða óbreyttir.

Sjá einnig: Segir lítið vit í kaupum á ríkisbréfum

Landsbankinn segir að „vaxtabreytinguna nú má fyrst og fremst rekja til þess að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa hefur hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtabreytingu.“ Enn fremur segir Landsbankinn að hann hafi verið í forystu um að lækka útlánsvexti, bæði til fyrirtækja og einstaklinga, frá því að Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt. Íslandsbanki vísaði einnig til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði þegar bankinn hækkaði vexti í október.

Fastir innlánsvextir til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir innlánsvextir til 60 mánaða hækka um 0,2 prósentustig. Þá verða breytingar á innlánsvöxtum gjaldeyrisreikninga í sterlingspundum, Kanadadal og norskri króna, að því er segir í tilkynningu Landsbankans.