Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu sem útgerðarfélagið Vísir gerði um að tveir lánasamningar sem gerðir voru við Landsbankann yrðu viðurkenndir sem ólöglegir gengistryggðir lánasamningar. Samningarnir voru annars vegar 4 milljarða króna lánasamningur sem gerður var árið 2004 og hins vegar 650 milljóna króna lánasamningur sem gerður var árið 2007.

Hæstiréttur segir að texti lánasamninganna taki ekki af skarið um það hvers eðlis samningarnir eru, það er hvort þeir séu samningar um erlend lán eða samningar um íslenskt lán þar sem vextireru bundnir við  gengi erlendra miðla. Í slíkum tilfellum verði að skoða hvernig efndir á hinum umdeildu samningum hafi verið. Í tilfelli þeirra samninga sem Vísir og Landsbankinn gerðu verði að telja að þeir hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendar myntir skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum.