Afkoma Landsbankans var jákvæð um 12,4 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi árins 2015 samanborið við 14,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2014. Á öðrum ársfjórðungi hagnaðist bankinn um sex milljarða króna samanborið við 10,6 milljarða króna hagnað ári fyrr.

Hreinar vaxtatekjur voru 16,2 milljarðar króna og hækka um 6% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,4 milljörðum króna og hækka um 16% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar útlána lækka um 9,6 milljarða króna á milli ára, en hagnaður af hlutabréfum hækkar á sama tíma um tæpa 5 milljarða. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,4% á ársgrundvelli samanborið við 12,8% á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði umtalsvert og var 44,8% á fyrri helmingi ársins en var 54,9% á sama tímabili árið áður. Rekstrarkostnaður hækkar um 2% milli ára, en betri tekjusamsetning mun skýra lækkun kostnaðarhlutfallsins. Innlán frá viðskiptavinum hafa aukist um 13% á árinu og útlán um 6% en hluta þess má rekja til samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja í lok mars. Á fyrri helmingi ársins námu ný íbúðalán 31,7 milljarði króna, en voru 21,5 milljarður króna á sama tíma á síðasta ári.

Heildareignir bankans námu 1.173 milljörðum í lok júní 2015. Eigið fé bankans nam í lok júní um 239,9 milljörðum króna og hefur það lækkað um 4% frá áramótum. Á fyrsta ársfjórðungi var greiddur tæplega 24 milljarða króna arður til hluthafa. Eiginfjárhlutfallið er nú 28,0% en var 26,8% í lok júní 2014.

Góð tekjusamsetning og traust fjárhagsstaða

„Afkoma Landsbankans fyrstu sex mánuði ársins er með ágætum, tekjusamsetningin betri en áður og fjárhagsstaðan er traust. Bankinn hefur notið góðs af hagstæðri þróun í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum og viðskipti hafa verið að aukast umtalsvert.  Markaðshlutdeild bankans í útlána- og innlánastarfsemi og í markaðsviðskiptum heldur áfram að aukast.  Samkvæmt mælingum Gallup í júní mælist Landsbankinn með mestu markaðshlutdeildina á einstaklingsmarkaði, eða 35,1% og hefur aldrei mælst hærri.  Þetta sýnir að viðskiptavinir kunna að meta það sem Landsbankinn er að gera,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Hann segir að það sem af er árinu hafi Landsbankinn unnið að innleiðingu nýrrar stefnu sem nái til ársins 2020 og feli í sér umfangsmiklar breytingar sem ætlað er að skila árangri bæði til skemmri og lengri tíma.

„Stefnan felur í sér enn frekari hagræðingu í rekstri, m.a. með því að koma miðlægri starfsemi bankans undir eitt þak en Landsbankinn hefur tekið sér frest til að vega og meta þau sjónarmið sem fram hafa komið  um fyrirhugaða nýbyggingu. Í stefnunni er lögð áhersla á að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu, þróa rafræna þjónustu, auka skilvirkni stoðeininga, móta nútímalegra tækniumhverfi og hagkvæman efnahagsreikning um leið og áhættu er haldið innan marka. Þá er sérstök áhersla lögð á árangursmiðaða menningu innan bankans. Saman eiga þessir þættir sem brotnir hafa verið niður í 7 verkstrauma, að skila ánægðum og tryggum viðskiptavinum og starfsmönnum, hagkvæmum rekstri og ásættanlegri arðsemi eigin fjár til framtíðar,“ segir Steinþór.