Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna, eftir skatta, en var 29,7 milljarðar árið 2014. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að lagt verði til við aðalfund að greiddur verði 28,5 milljarða króna arður til hluthafa.

Í ársreikningi bankans segir að aukinn hagnaður bankans á árinu 2015 sé tilkominn vegna vaxandi tekna af kjarnastarfsemi bankans,  áframhaldandi jákvæðum virðisbreytingum og stöðugum kostnaði. Hreinar vaxtatekjur jukust um 4.251 milljón króna og hreinar þjónustutekjur jukust um 1.005 milljónir króna, eða 17%. Auknir skattar að fjárhæð 2.630 milljónir króna og minni tekjur vegna virðisbreytinga að fjárhæð 1.912 milljónir króna vega að hluta til upp á móti auknum tekjum á árinu. Þrátt fyrir minni tekjur vegna virðisbreytinga á útlánasafninu hafa virðisbreytingar ennþá töluverð jákvæð áhrif á hagnað bankans á árinu.

Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014. Tekjur vegna virðisbreytingar útlána námu 13,5 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 14,9 milljarða króna ári fyrr. Eigið fé Landsbankans nam 264,5 milljörðum króna í árslok 2015 og eiginfjárhlutfallið (CAR) var 30,4%.

Í tilkynningu er haft eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að góður gangur hafi verið á nánast öllum sviðum í rekstri bankans. „Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári og um leið lækkuðu rekstrargjöld. Dregið hefur úr óvissu og áhættu hjá bankanum. Gæði eigna hafa aukist og fjármögnun bankans hefur styrkst með betra aðgengi að innlendum og erlendum lánamörkuðum. Lausafjárstaðan er sterk auk þess sem eiginfjárstaða bankans er hlutfallslega með því hæsta sem þekkist, þrátt fyrir háar arðgreiðslur. Samþætting Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann gekk vel og styrkir Landsbankann enn frekar á landsbyggðinni.“