Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi nam rétt rúmum 12 milljörðum króna, samanborið við 5,1 milljarðs króna hagnað á sama tíma í fyrra. Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 24,4 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn tæpum 20 milljörðum. Bakfærð varúðarfærsla vegna gengislána til fyrirtækja skýrir 6,8 milljarða króna af hagnaði eftir skatta á 3. ársfjórðungi.

Arðsemi eigin fjár Landsbankans á þriðja fjórðungi þessa árs var 19,5%, en var 8,6% á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur arðsemi eigin fjár 13,5% samanborið við 11,4% á sama tíma í fyrra. Leiðrétt arðsemi eftir skatta var 8,1% á þriðja fjórðungi þessa árs, en 6,9% á sama tíma í fyrra.

Vaxtamunur eigna og skulda dróst saman á þriðja ársfjórðungi úr 2,4% í 1,9%, en jókst úr 2,0% í 2,3% á fyrstu níu mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra.

Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánuði ársins er 45,7%, en það var 55,3% á sama tímabili í fyrra. Eigið fé Landsbankans var við lok þriðja fjórðungs 252,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall (CAR) er 29,2%.

Í tilkynningu er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, að fjárhagslegur styrkur bankans sé mikill. Á 3. ársfjórðungi muni mikið um áhrif af dómum Hæstaréttar sem vörðuðu ágreining um gengislán til stærri fyrirtækja. Vegna fordæmisgildis dómanna hafi bankinn bakfært varúðarfærslu frá árinu 2012 sem hafi jákvæð afkomuáhrif upp á 6,8 milljarða króna, eins og áður segir.

Hann segir að innlán og útlán hafi aukist töluvert, en búast megi við að nokkuð hægi á útlánavexti á næstu mánuðum og að innlán minnki í kjölfar samþykkis nauðasamninga föllnu fjármálafyrirtækjanna og annarra skrefa sem stigin verða í tengslum við afnám fjármagnshafta. Vegna þessa megi búast við að efnahagsreikningur Landsbankans minnki um allt að 10%.