Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi nam 5.107 milljónum króna króna, samanborið við 6.751 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður bankans 19.985 milljónum, en var 22.276 milljónir króna á fyrstu mánuðum síðasta árs.

Í frétt á vefsíðu bankans segir að lækkunin skýrist aðallega af hærri sköttum, en þeir hafi hækkað um 32% milli ára. Í heild nema tekjuskattur og sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki um 8,7 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2014.

Hreinar vaxtatekjur Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins námu 22.297 milljónum króna, en voru 24.337 milljónir á sama tíma í fyrra. Hreinar þóknanatekjur hækkuðu úr 4.111 milljónum í 4.196 milljónir á milli ára. Rekstrarkostnaður bankans lækkaði töluvert á milli ára, en á fyrstu níu mánuðum þessa árs nam hann 16.970 milljónum, en var 21.371 milljón á sama tíma í fyrra. Munurinn liggur helst í því að laun og launatengdur kostnaður fór úr 13.796 milljónum í fyrra í 9.762 milljónir í ár.

Í kynningu segir að mikill árangur hafi náðst við að lækka vanskil fyrirtækja og heimila og mældust heildarvanskil 3,3% í lok september. Mældust þau 6,2% á sama tíma árið áður. Þessi lækkun vanskila hefur meðal annars skilað sér í jákvæðri virðisbreytingu útlána.

Eigið fé Landsbankans nam í septemberlok 240.988 milljónum króna, en var 241.359 milljónir um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall bankans hækkar hins vegar úr 26,7% í 27,1%.

Haft er eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að rekstur bankans hafi gengið vel fyrstu níu mánuði ársins. Lækkun á vaxtamun og á verðbréfamörkuðum hafi haft áhrif til lækkunar á tekjum en á móti komi virðisaukning útlána m.a. vegna hratt lækkandi vanskila. Bæði inn- og útlán hafi vaxið töluvert sem sé til marks um vaxandi umsvif í hagkerfinu.