Landsbankinn hagnaðist um 4,9 milljarða króna á síðasta fjórðungi ársins 2007, borið saman við 14,1 milljarð króna á sama tímabili árið 2006.

Í tilkynningu frá bankanum segir: „Hagnaður ársins 2007 nam 39,9 milljörðum króna (EUR 456m). Hagnaður fyrir skatta var 45,6 milljarðar króna (EUR 520m).  Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 27%. Grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 93,4 milljörðum króna (EUR 1,1bn) á árinu 2007 og jukust um 34% frá fyrra ári. Grunntekjumyndun verður stöðugt dreifðari og var hlutfall erlendra grunntekna 52% á árinu 2007 samanborið við 49% á árinu 2006.

Þóknunartekjur námu 39,4 milljörðum króna (EUR 449m) samanborið við 28,4 milljarða króna á árinu 2006. Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 16,6 milljörðum króna (EUR 189m) samanborið við 19,6 milljarða króna á árinu 2006. Lausafjárstaða bankans er mjög sterk og nam laust fé tæplega 9 milljörðum evra í árslok 2007. Afborganir af erlendum skuldabréfaútgáfum á árinu 2008 eru hinsvegar einungis 0,8 milljarðar evra.

Heildareignir bankans námu 3.058 milljörðum króna (EUR 33,4bn) króna í árslok 2007 í samanburði við 2.173 milljarða króna í upphafi ársins. Útlán bankans námu 2.023 milljörðum króna (EUR 22,1bn) í árslok 2007.  Innlán viðskiptavina námu hinsvegar 1.421 milljarði króna (EUR 15,5bn) eða um það bil ¾ af heildarútlánum og jukust þau um 108% á árinu. Landsbankinn er með engar áhættuskuldbindingar sem tengjast skuldabréfavafningum (s.s. CDOs, SIVs og CLOs) í útlánasafni sínu. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 11,7% í árslok 2007. Eiginfjárþáttur A var 10,1%.

Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs 2007:

Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2007 nam 4,9 milljörðum króna (EUR 56m). Hreinar rekstrartekjur fjórða ársfjórðungs námu 24,8 milljörðum króna (EUR 283m). Hreinar vaxtatekjur námu 15,2 milljörðum króna (EUR 174m) í samanburði við 14,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Þóknunartekjur þriðja ársfjórðungs námu 9,7 milljörðum króna (EUR 110m). Grunntekjur samstæðunnar hafa aldrei verið hærri á einum ársfjórðungi eða 24,9 milljarðar króna (EUR  284m).

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri bankans, segir í tilkynningu frá bankanum: „Rekstrarafkoma Landsbankans á árinu 2007 var góð og nam hagnaður bankans 40 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár 27%. Tekjumyndun samstæðunnar verður sífellt dreifðari auk þess sem grunnafkoma  hefur verið stöðug eða í kringum 24-26% arðsemi á eigin fé fyrir skatta. Lausafjárstaða bankans er sterk einkum vegna mikils vaxtar í erlendri innlánastarfsemi. Afborganir af erlendum skuldabréfaútgáfum verða óverulegar á árinu 2008 eða 0,8 milljarðar evra á meðan laust fé bankans er tæpir 9 milljarðar evra. Þá er útlánasafn Landsbankans traust og er bankinn ekki með neinar áhættuskuldbindingar sem tengjast svokölluðum skuldabréfavafningum, s.s. CDOs, SIVs osfrv. Við þær óvenjulegu aðstæður sem einkenna alþjóðlega fjármálamarkaði þessi misserin skapa þessir þættir í raun tækifæri fyrir banka eins og Landsbankann.“

Halldór J. Kristjánsson bankastjóri segir:   „Árangur margþáttaðra aðgerða sem gripið hefur verið til á undanförnum misserum kemur skýrt fram í uppgjöri Landsbankans fyrir árið 2007. Dregið hefur verið úr markaðsáhættu, útlánasafn bankans er vel áhættudreift og fjármögnunarhlið bankans sterk. Innlán nema nú um ¾ af heildarútlánum til viðskiptavina og er bankinn með tæplega 150 þúsund viðskiptavini sem valið hafa IceSave innlánsform okkar í Bretlandi. Á árinu var nýjum vörum bætt í innlánasafn IceSave og eru 14% innstæðna nú bundnar til lengri tíma.  Tryggir það áframhaldandi áhættudreifingu innlána samstæðunnar.  Á fjórða ársfjórðungi gekk bankinn frá 400 milljón USD víkjandi láni og styrkti þannig eiginfjárstöðu sína enn frekar og er eiginfjárstaða og lausafjárhlutfall bankans nú með því besta sem gerist í Norður Evrópu. Áframhaldandi samþætting rekstrareininga miðaði vel á árinu og hefur bankinn lagt áherslu á að kynna starfsemi bankans og stöðu íslensks efnahagslífs í því umróti sem einkennir alþjóðlega fjármálamarkaði.““