Landsbankinn hagnaðist um 5,1 milljarð á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 12 milljarð króna hagnað á sama tíma fyrir ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur bankinn hagnast um 16,4 milljarða samanborið við 24,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2015.

Hreinar vaxtatekjur lækkuðu hins vegar á milli tímabila, námu 8,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2016 en voru 8,8 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2015.

Eigið fé Landsbankans var í lok september um 251 milljarður króna og hefur það lækkað um 5,1% frá áramótum. Skýringin er sú að Landsbankinn hefur greitt á þessu ári 28,5 milljarða króna í arð í tveimur greiðslum, annars vegar í apríl og hins vegar í september. Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) var 29,1% í lok september sl. en var 29,2% ári fyrr.
Það er vel umfram 22,1% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.

Virðisbreyting útlána bankans var jákvæð um 2,1 milljarð á þriðja ársfjórðungi samanborið við 10,5 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2015.

Hreinar þjónustutekjur hækkuðu vegna aukinna viðskipta

Hreinar þjónustutekjur bankans hækkuðu milli tímabila vegna aukinna viðskipta og námu 2 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2016 samanborið við 1,7 milljarð króna á sama tímabili árið áður sem er 15% aukning milli ára.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% á þriðja ársfjórðungi samanborið við 19,5% á sama ársfjórðungi árið 2015. Heildareignir bankans námu 1.134 milljörðum króna í lok september 2016.

Ný útlán til viðskiptavina Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins voru um 186 milljarðar króna en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta hækkuðu heildarútlán um 25,9 milljarða króna frá áramótum. Í lok september voru heildarútlán 837 milljarðar króna. Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum héldust stöðug milli ára og voru 1,8% í lok september.

Eignir umfram skuldir í erlendri mynt eru um 2,4 milljarðar króna, samanborið við 23,8 milljarða króna í lok síðasta árs.

Gæði eigna bankans hafa aukist

Haft er eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, í fréttatilkynningu að Landsbankinn haldi áfram að styrkja stöðu sína sem leiðandi fjármálafyrirtæki hér á landi og hefur markaðshlutdeild bankans aldrei mælst hærri en á árinu. Hann bendir enn fremur á að gæði eigna bankans hafa batnað. Þó eru að mati Steinþórs enn töluverðar sveiflur í einskiptliðum. Ef horft sé fram hjá þeim liðum þá batnar afkoman frá því í fyrra.

„Landsbankinn hefur greitt verulegar fjárhæðir í arð til eigenda á árinu, hærri en nokkru sinni fyrr. Nýtt og hærra lánshæfismat frá Standard & Poor‘s nú í október staðfestir sterka stöðu bankans. Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins er gott og afkoma er umfram væntingar okkar. Það er ánægjulegt að viðskiptavinir sjá sér hag í að beina viðskiptum í auknum mæli til bankans og að traust fjárfesta á bankanum fer vaxandi,“ segir Steinþór einnig í yfirlýsingu frá bankanum.