*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 23. maí 2013 17:55

Landsbankinn hagnast um tæpa átta milljarða

Bankinn stendur vel, að mati Steinþórs Pálsson bankastjóra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hagnaðist um rétt tæpa átta milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er sambærilegur hagnaður og fyrir ári en hagnaður bankans nam rúmum 7,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi á síðasta ári.

Fram kemur í uppgjöri bankans að hagnaður fyrir skatta nam rúmum 9,8 milljörðum króna sem er 1% meira en í fyrra. Arðsemi eigin fjár nam 14,0% samanborið við 15,2% arðsemi á sama tíma í fyrra. Eiginfjárhlutfall var í lok fjórðungsins 26,6% og hefur það aldrei verið hærra. Á sama tíma í fyrra var það 22,1%. 

Bankastjórinn Steinþór Pálsson segir uppgjörið við gamla bankann standa upp úr. „Með þessu uppgjöri náðist mikilsverður áfangi í uppbyggingu bankans og um leið varð breyting á eignarhaldi sem skilar sér í miklum ávinningi fyrir ríkissjóð. Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum hefur nú hækkað um tæplega 62 milljarða króna umfram fjármagnskostnað þegar litið er á bókfærða stöðu eigin fjár bankans í lok þriðja ársfjórðungs,“ segir hann og bætir við að bankinn standi vel. 

Stikkorð: Landsbankinn