Landsbankinn hefur ákveðið að sameina útibú bankans í Reykjanesbæ. Afgreiðslur í Garði og Vogum verða á einum stað að Tjarnagötu í Reykjanesbæ, og síðar í nýtt húsnæði að Krossmóa, frá og með 14. september næstkomandi. Talið er að sparnaður vegna aðgerðanna nemi um 150 milljónum á ári.

Bankinn tilkynnir um breytingarnar í dag en afgreiðsla í Sandgerði verður rekin þar áfram. Í tilkynningunni segir að ekki verði um neinar uppsagnir að ræða þar sem starfsmönnum í Garði, Vogum og afgreiðslu í Reykjanesbæ verði boðið starf í útibúinu eða í afgreiðslunni í Sandgerði.

„Óhjákvæmilegt er að við þetta verði nokkur breyting á starfsemi Landsbankans á Reykjanesi en mikil áhersla er lögð á að þjónusta við viðskiptavini skerðist eins lítið og unnt er. Starfsfólk bankans mun leggja sig fram um að halda þeim óþægindum sem skapast í lágmarki. Engar breytingar verða á reikningsnúmerum og ekki er þörf á endurnýjun greiðslukorta. Hraðbanki verður áfram í Garði og settur verður upp hraðbanki í Vogum,“ segir í tilkynningunni. Um 45 manns munu starfa í sameinuðu útibúi.

Útibúum Landsbankans og Spkef hefur samanlagt fækkað um tæplega þriðjung á síðustu tveimur árum. Frá árinu 1998 hefur afgreiðslustöðvum Landsbankans fækkað úr 64 í 38 og verða eftir þessar breytingar 35.