Landsbanki Íslands hefur hafið sölu á skuldabréfum að virði einn milljarður evra (73,5 milljarðar íslenskra króna). Sex erlendir bankar, sem leiða útboðið, tilkynntu söluna í dag. Það er breski bankinn HSBC sem stjórnar sölunni til fjárfesta en meðstjórnendur eru DZ Bank, Fortis Bank, ING Bank, Sampo Bank og UBM.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að mikil eftirspurn hafi verið eftir bréfunum í kjölfar fjárfestakynningar.

Bréfin eru til fimm ára á breytlegum vöxtum. Vaxtabilið er á milli 21-22 punktar yfir þriggja mánaða EURIBOR-vexti. EURIBOR eru millibankavextir í Evrópu. Ekki er búið að verðleggja bréfin.

Landsbankinn er með lánshæfismatið A2 hjá Moody's Investors Service, einu þrepi lægra en Kaupþing banki og Íslandsbanki, sem eru með lánshæfismatið A1