Niðurfærsla á lánum einstaklinga hefur kostað Landsbankann 15 milljarða króna. Bankinn hefur gjaldfært upphæðina í bækur sínar í fyrra og á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum þar sem farið er yfir það svigrúm sem bankinn hefur haft til afskrifta eða niðurfærslu á lánum til einstaklinga.

Þar segir að þegar samið var um kaup Landsbankans á lánasafni einstaklinga af gamla bankanum árið 2009 hafi niðurfærsla kaupverðsins til að mæta útlánaáhættu numið 46 milljörðum króna. Niðurfærsla bankans á lánum einstaklinga nemur nú orðið 61 milljarði króna og eru milljarðarnir fimmtán því viðbót umfram svigrúmið.