Landsbanki Íslands, sem tók yfir þrjú erlend verðbréfafyrirtækið á síðasta ári, hefur aftur fengið lyst á yfirtökum eftir tímabil samþættingar, segir bankastjórinn Sigurjón Árnason í samtali við AFX-fréttastofuna.

Landsbankinn tilkynnti fyrr á þessu ári að starfsemi bankans yrði samþætt á árinu 2006 og að stórar yfirtökur væru ekki áætlaðar á næstunni, sérstaklega í ljósi neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila fyrra á þessu ári, sem stuðlaði að tímabundnu umróti á íslenskum fjármálamarkaði.

Í viðtali við AFX segir Sigurjón: "Við munum skoða fyrirtæki og fyrirtæki með innlánastarfsemi á árinu 2007." Sigurjón bætir þó við að bankinn sé ekki að skoða banka eða fyrirtæki í Bretlandi.

Landsbankinn keypti í fyrra breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, evrópska verðbréfafyrirtækið Kepler Equities og írska verðbréfafyrirtækið Merrion Kapital. Bankinn hefur einnig verið orðaður við írska fjármála- og húsnæðislánafyrirtækið Irish Nationwide.

Hagnaður Landsbanka Íslands nam 26,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur hann aukist um 61%, en hagnaðurinn nam 16,2 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynnningu til Kauphallarinnar í dag..

Tekjur af erlendri starfsemi námu 30,2 milljörðum króna eða 47% af heildartekjum samanborið við 6,7 milljarða króna og 16% á fyrstu níu mánuðum ársins 2005.

Innlán viðskiptavina jukust um 54% á tímabilinu og námu 513 milljörðum króna í lok september 2006. Nema innlánin tæplega 40% af heildarútlánum til viðskiptavina.