Landsbankinn hefur lokið við að reikna um 75% allra þeirra lána sem til álita hefur komið að reikna. Í tilkynningu segir að fjöldi lána hafi bæst í það mengi á þessu ári. Það sem eftir stendur verður klárað í júní, júlí og ágúst.

Öll fasteignalán hafa verið endurreiknuð og tilkynnt um niðurstöðu til lántaka.

Staðan er annars svona:

  • Af tæplega 30.000 bílalánum hjá SP fjármögnun er eftir að reikna um 5.000 lán en þeim útreikningum lýkur í sumar.
  • Af tæplega 12.500 bílalánum hjá Avant er eftir að reikna um 5.500 lán. Í mars á þessu ári endurskoðaði bankinn afstöðu sína til leiðréttingar lána viðskiptavina hjá Avant og ákvað að leiðrétta endurreikning þar sem lántakar fengu greitt minna en 1 milljón króna úr nauðasamningi Avants. Þetta fjölgaði lánum sem komu til skoðunar en áhersla er lögð á að ljúka fyrst endurreikningi “lifandi lána” (lána sem enn er verið að greiða af).
  • Í desember 2013 féll Hæstaréttardómur þar sem í ljós kom að margir samningar sem áður töldust fjármögnunarleigusamningar eru í raun lánssamningar, ýmist erlend lán eða lán með ólögmæta gengistryggingu. Þeir samningar eru um 2.000 og nánast allir fyrirtækjasamningar. Ekki hefur tekist að reikna/leiðrétta þá alla enn vegna óvissu um hvernig meðhöndla skuli virðisaukaskattsgreiðslur þeim tengdum. Hefur sú óvissa tafið vinnu við endurreikning en honum mun engu að síður líka ljúka í sumar.

Landsbankinn hefur áður sagt að stefnt sé að því að ljúka öllum megin þorra leiðréttinga fyrir mitt þetta ár. Vegna hæstaréttardóma sem kallað hafa á breytingar á endurreikningi og ákvörðunar bankans um að fjölga þeim lánum sem leiðrétt verða, eins og nefnt er hér að ofan, þá dregst þessi vinna um nokkra mánuði.