*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 11. nóvember 2011 16:31

Landsbankinn hefur fært niður 390 milljarða í skuldum

Heildarhlutfall niðurfærðra skulda hjá bankanum er um 37%, sem er svipað hlutfall og hjá einstaklingum.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Landsbankinn hefur nú fært niður skuldir fyrirtækja sem nemur 390 milljörðum króna frá hruni. Stærstur hluti þeirra eru skuldir stórra eignarhaldsfélaga sem litlar eignir áttu og fóru í gjaldþrot, eða kröfuhafar eignuðust eftir nauðsamninga. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Segir þar jafnframt að í tengslum við endurskipulagningu lána hafi vanskil heimila og fyrirtækja minnkað verulega að undanförnu.

Hlutfall niðurfærðra skulda fyrirtækja er um 37%. Það lætur nærri að vera sama hlutfall og hjá einstaklingum sem er um 35%. Yfir 90 daga vanskil eru nú um 14,5%, en voru 24,5% um mitt ár.

„Skuldir þeirra fyrirtækja sem endurskipulögð hafa verið, eru í flestum tilvikum mjög miklar. Oftast nemur skuldsetning þeirra allt að 100% af eigna- eða rekstrarvirði sem gerir stöðu þeirra erfiða þrátt fyrir niðurfærsluna. Sum lána þessara fyrirtækja eru svokölluð biðlán og koma til greiðslu að ákveðnum tíma liðnum. Það svigrúm sem þetta skapar munu fyrirtækin þurfa að nýta á næstu misserum og árum til að styrkja fjárhagsstöðu sína, t.d. með öflun nýs eiginfjár, með sölu á eignum eða samruna, segir í tilkynningunni.“

Eignarhaldsfélög og þjónustufyrirtæki vega þyngst

Eins og áður segir vega eignarhaldsfélög þyngst í niðurfærslum bankans, en hjá þeim hefur bankinn fært niður 168,5 milljarða króna, eða um 65% af heildarútlánum til slíkra fyrirtækja. Niðurfærslur hjá þjónustufyrirtækjum nema um 101,9 milljörðum, eða 37% af útlánum og hjá byggingarfyrirtækjum nema niðurfærslur um 38,7 milljörðum eða 54% af útlánum. Verslunarfyrirtæki hafa fengið 36,9 milljarða niðurfærða, eða um 27% útlánum, sjávarútvegsfyrirtæki hafa fengið 29,7 milljarða niðurfærða, eða 13% af útlánum og iðnaðarfyrirtæki hafa fengið 6,7 milljarða niðurfærða, eða 18% af heildarútlánum. Niðurfærslur hjá orku- og vatnsveitum nema 3,6 milljörðum króna, eða 32% af útlánum til þeirra og landbúnaðarfyrirtæki hafa fengið 2,4 milljarða niðurfærða, sem nemur um 19% af heildarútlánum.