Landsbankinn hefur yfirtekið 1.325 íbúðir frá því á Nýársdag árið 2009 og fram til loka febrúar á þessu ári. Upplýsingar um skiptingu milli einstaklinga og félaga liggja ekki fyrir. En skipting milli nauðasamninga og frjálsra samninga félaga er um 50%.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans, við fyrirspurn Spyr.is . Bankarnir allir og Íbúðalánasjóður voru spurðir að því hversu margar íbúðir hefðu verið teknar yfir frá 1. janúar árið 2009. Til samanburðar var greint frá því fyrir helgi að Íslandsbanki hafi leyst til sín 630 íbúðir á sama tíma. Þar af voru 432 í eigu einstaklinga.

Í svari Kristjáns kemur fram að árið 2009 hafi bankinn leyst til sín 222 íbúðir, árið 2010 326 íbúðir, 462 árið 2011 og 288 íbúðir í fyrra. Í janúar og febrúar voru íbúðirnar sem bankinn leysti til sín 27 talsins. Þetta jafngildir því að bankinn hafi leyst til sín að meðaltali 27 íbúðir á mánuði í þrjú ár.