Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að áfram sé unnið að breytingum í bankanum sem leiða muni til hagræðingar og einföldunar í rekstri líkt og gert hafi verið undanfarin ár.

Breytingarnar hafa leitt til fækkunar stöðugilda um 150 á undanförnum árum og segir bankinn að fækkunin hafi að langstærstum hluta byggst á eðlilegri starfsmannaveltu, þar sem ekki sé ráðið í störf sem losni eða starfsmenn hætti vegna aldurs. Er þetta svar við þeirri þróun sem á sér stað í bankastarfsemi þar sem viðskiptavinir nýta sér í síauknum mæli rafræn samskipti við banka.

Þá segir bankinn það fyrirséð að 40 starfsmenn til viðbótar muni láta af störfum fram að áramótum. Þar af séu 18 vegna uppsagna en aðrir vegna aldurs.

Sú breyting sem snertir viðskiptavini bankans mest verður lokun útibús í Sandgerði frá og með 11. október, en hluti starfsmanna mun færast í útibú bankans í Reykjanesbæ. Þá verður bakvinnsla sem starfrækt hefur verið í Reykjanesbæ flutt í starfsstöð bankans í Mjódd.

Starfsemi þjónustuvers bankans á Selfossi verður einnig hætt frá deginum í dag og verður sameinað skiptiborði bankans á Akureyri.