Landsbankinn hefur ákveðið að hækka vexti óverðtryggðra inn- og útlána um allt að 0,75 prósentustig frá og með 11. júlí, segir í tilkynningu frá bankanum.

Fyrr í dag tilkynntu Kaupþing banki og Glitnir að bankarnir hefðu ákveðið að hækka vexti í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans.

Landsbankinn segir að ákvörðun um vaxtahækkun er tekin í beinu framhaldi af 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta Seðlabankans í morgun.

?Vegna hækkunar ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa á markaði hækkar Landsbankinn einnig vexti á verðtryggðum inn- og útlánum um 0,10 prósentustig," segir í tilkynningunni.

?Vextir á íbúðalánum Landsbankans hækka einnig 7. júlí og verða 4,95% eftir hækkun. Breyting á vaxtakjörum íbúðalána nú hefur engin áhrif á kjör þeirra sem nú þegar hafa tekið íbúðalán hjá bankanum."

Landsbankinn segir að með vaxtahækkunum og hertari stefnu í útlánum hafi hann eindregið stutt Seðlabankann í að ná verðbólgumarkmiði sínu og viðhalda efnahagslegum stöðugleika í landinu.

?Stýrivextir Seðlabankans eru orðnir mun hærri en æskilegt er til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að þær aðstæður skapist sem fyrst að Seðlabankinn geti stöðvað vaxtahækkanaferli sitt," segir í tilkynningunni.

?Það er mat Landsbankans að þær aðstæður skapist ekki nema stjórnvöld og aðrir aðilar sem áhrif hafa á framvindu efnahagsmála leggist allir á eitt og taki ákvarðanir sínar með það í huga."