Bankastjórn Landsbankans hefur ákveðið að hækka vexti á íbúðalánum úr 4,15 prósent í 4,45 prósent. Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað úr 6,25 í 10,25 prósent frá því Landsbankinn hóf að veita íbúðalán og markaðsvextir hafa hækkað um 0,4 til 0,9 prósentustig á nokkrum vikum. Vaxtabreytingunni er ætlað að stuðla að lægri verðbólgu sem mun koma öllum lántakendum til góða þegar fram í sækir.

Aðstæður á fasteigna- og skuldabréfamarkaði hafa breyst hratt að undanförnu. Það kallar óhjákvæmilega á viðbrögð af hálfu bankanna. Markaðsvextir á verðtryggðum ríkistryggðum skuldabréfum hafa hækkað um 0,4 ? 0,9 prósentustig á örfáum vikum og eru nú 4,1 til 4,5 prósent. Þetta þýðir að 4,15 prósent vextir á húsnæðislánum eru lægri en almennir vextir á skuldabréfamarkaði.

Hækkun vaxta á markaði að undanförnu er til komin vegna áhrifa af hækkun stýrivaxta Seðlabankans á síðustu átján mánuðum. Má því segja að aðhaldsaðgerðir Seðlabankans séu nú loks að skila árangri.

Ákvörðun Landsbankans um hækkun vaxta er rökrétt framhald af ákvörðun hans um að lækka hámark íbúðalána úr 90 í 80 prósent, sem kynnt var 21. október s.l., og liður í leggja lóð á vogarskálarnar og styðja stjórnvöld og Seðlabankann í þeirri viðleitni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.
Í þessu sambandi er mikilvægt að árétta að breyting á vaxtakjörum íbúðalána nú hefur engin áhrif á kjör þeirra sem nú þegar hafa tekið lán hjá bankanum. Jafnframt er lögð áhersla á að Landsbankinn kappkostar að bjóða ætíð upp á eins góð kjör í íbúðalánum og frekast er unnt. Vextir bankans munu því halda áfram að taka breytingum í samræmi við aðstæður á markaði - hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar.
Stærstu hagsmunir lántakenda felast í því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika bæði hvað varðar verðlag og gengi krónunnar. Þetta á ekki síður við um nýja lántakendur en þá sem þegar hafa tekið lán hjá Landsbankanum. Verðbólgustig hefur mikil áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði íbúðalána og því er mikilvægt að halda verðbólgu niðri.
Miklu varðar að óhjákvæmileg aðlögun þjóðarbúsins eftir mikla uppsveiflu verði mjúk. Þannig skapast forsendur til þess að vaxtastig á Íslandi lækki til frambúðar. Landsbankinn vill með aðgerðum sínum stuðla að því að sú verði raunin.