Landsbankinn hefur ákveðið í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans að breyta óverðtryggðum vöxtum til samræmis við breytingar Seðlabankans og jafnframt ákveðið að hækka vexti íbúðalána um 0,25 prósentustig og verða þeir 4,70% eftir hækkunina.

Í tilkynningu bankans kemur fram að þessum breytingum er ætlað að leggja lóð á vogarskálarnar og styðja stjórnvöld og Seðlabankann í þeirri viðleitni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þær eru rökrétt framhald af fyrri ákvörðunum Landsbankans um hækkun vaxta íbúðalána og lækkun hámarks veðhlutfalls íbúðarlána sem kynntar voru s.l. haust.

Ein mikilvæg forsenda þess að ná tökum á verðbólgu, er að fasteignalán séu veitt á kjörum sem taka mið af markaðskjörum. Með vaxtahækkun nú vill Landsbankinn leggja sitt af mörkum til þess að aðlögun í íslenskum þjóðarbúskap geti orðið eins hnökralaus og frekast er unnt segir í tilkynningu bankans.

Aðstæður eru breyttar á fasteigna- og skuldabréfamarkaði en markaðsvextir á verðtryggðum ríkistryggðum skuldabréfum hafa hækkað umtalsvert frá því bankarnir hófu að veita íbúðalán fyrir einu og hálfu ári síðan. Þessar breyttu aðstæður kalla á viðbrögð að hálfu bankanna enda er óhjákvæmilegt annað en að kjör íbúðalána fylgi þróun markaðsvaxta.
Stærstu hagsmunir lántakenda felast í því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika bæði hvað varðar verðlag og gengi krónunnar og ber að líta á þessa ákvörðun bankans í því ljósi. Þetta á bæði við um nýja lántakendur og þá sem þegar hafa tekið lán hjá Landsbankanum. Verðbólgustig hefur mikil áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði íbúðalána og því eru það langtímahagsmunir lántakenda að halda verðbólgu niðri.

"Rétt er að undirstrika að breyting á vaxtakjörum íbúðalána nú hefur engin áhrif á kjör þeirra sem nú þegar hafa tekið íbúðalán hjá bankanum. Jafnframt leggur Landsbankinn áherslu á að bjóða ætíð upp á eins góð kjör í íbúðalánum og frekast er unnt. Vextir bankans munu því halda áfram að taka breytingum í samræmi við aðstæður á markaði - hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar," segir í tilkynningu bankans.