Landsbankinn brást snemma árs 2006 við ábendingum frá erlendum greiningaraðilum og bankastofnunum, í kjölfar þess að kastljós erlendra fjölmiðla og markaðsaðila beindist að íslenskum efnahagsmálum og íslenska bankakerfinu, samkvæmt yfirlýsingu frá bankanum.

„Aðgerðir fólust meðal annars í því að minnka markaðsáhættu sem hlutfall af efnahagsreikningi; eignatengsl voru einfölduð og skýrð; upplýsingagjöf var stórbætt; og ekki síst var stoðum fjölgað í fjármögnun bankans með áherslu á alþjóðlega innlánastarfsemi,“ segir í yfirlýsingu frá Landsbankanum.

Innlánahlutfall hækkað

Í yfirlýsingu Landsbankans segir að innlán með þeim hætti sem Icesave lánin voru hafi verið hagstæðasta fjármögnunarleið íslenskra banka á þeim tíma þegar skuldatryggingarálag var hátt. Landsbankinn hafi gerst aðili að breska tryggingasjóðnum árið 2006 á grundvelli laga um Evrópska efnahagssvæðið.

„Allir markaðsaðilar voru á einu máli um að það viðskiptamódel sem Landsbankinn hafði markað sér, með 63% útlána fjármögnuð með innlánum, væri það módel sem myndi best standa af sér núverandi umbrotatíma og væri því rétt stefnumótun,“ segir um ástandið sumarið 2007 í yfirlýsingu Landsbankans.

„Þau innlán sem safnað var í Bretlandi voru nýtt til fjármögnunar samstæðunnar í heild, m.a. til fjármögnunar lánastarfsemi í Bretlandi og dótturfélaga víða um Evrópu, auk verkefna á vegum íslenskra fyrirtækja hér heima or erlendis sem kröfðust fjármögnunar í erlendri mynt. Þetta er algengt í fjárstýringu allra alþjóðlegra banka,“ segir enn fremur.

Landsbankinn segir að með þjóðnýtingu Glitnis hafi farið af stað atburðarrás sem markar djúp spor í sögu fjármálageirans á Íslandi. Starfsumhverfi Landsbankans hafi orðið með þeim hætti að bankinn hafi sjálfur óskað eftir því að falla undir nýsamþykktan lagaramma um aðgerðir fjármálaeftirlitsins vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum.

Fullt samráð við eftirlitsaðila Íslands, Bretlands og Hollands

Landsbankinn telur mikilvægt að taka fram að hafist var handa við undirbúning yfirfærslu Icesave reikninga í dótturfélag bæði í Bretlandi og Hollandi á þessu ári.

„Landsbankinn hóf viðræður við breska fjármálaeftirlitið (FSA) í mars á þessu ári um lausafjárstýringu í útibúi Landsbankans í London. Þeim viðræðum lauk með samkomulagi sem gert var 29. maí og fól í sér að ekki aðeins London útibúið tæki upp lausafjárstýringu eftir breskum reglum heldur yrði þeim reglum beitt á samstæðu Landsbankans í heild sinni.

FSA tók síðan málið upp að nýju þann 2. júlí og var þess þá óskað af þeirra hálfu að Landsbankinn hæfi vinnu sem miðaði að því að koma starfsemi sem tengdist Icesave í Bretlandi í sérstakt dótturfélag. Landsbankinn hafði náið samráð við FME um afstöðu til óska FSA svo sem eðlilegt er. Landsbankinn lýsti vilja sínum til að skoða þá leið enda hafði Landsbankinn fyrr kynnt FSA hugmyndir þar að lútandi að eigin frumkvæði. Ljóst er að slík yfirfærsla skuldbindinga gagnvart innstæðueigendum sem hér um ræðir er mjög flókin í framkvæmd.

Af hálfu Landsbankans var óskað eftir sveigjanleika af hálfu FSA til að unnt yrði að framkvæma yfirfærsluna í nokkrum skrefum en ekki var fallist á nægilegan sveigjanleika af hálfu FSA þrátt fyrir heimildir í þeirra reglum til að veita undanþágur frá reglum sem að þessu lúta.

Að lokum lagði Landsbankinn til svokallaða flýtimeðferð (e.fast track) um að tilfærsla í dótturfyrirtæki gæti átt sér stað strax. Sú vinna stóð enn yfir þegar þeir atburðir urðu sem leiddu til þess að stjórn Landsbankans óskaði eftir atbeina Fjármálaeftirlitsins þann 7. október s.l. Landsbankinn fór eftir þeim fyrirmælum sem fram komu frá eftirlitsaðilum á Íslandi sem erlendis varðandi lausafjárstýringu bankans og sendi reglulegar skýrslur um stöðu bankans,“ segir í yfirlýsingu bankans.

Bankinn vill því ítreka að engar reglur hafi verið brotnar í þessu ferli og að haft hafi verið náið samráð við Fjármálaeftirlitið um viðræður við erlend eftirlit.