Landsbankinn hyggst selja 19,8% hlut sinn í sænska fjárfestingarbankanum D. Carnegie & Co AB. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Landsbankinn á nú 13.643.280 hluti í Carnegie. Landsbankinn eignaðist hlutabréfin í tengslum við samruna Landsbankans við Burðarás hf. sem tilkynntur var þann 2. ágúst 2005. Fyrirhuguð sala bréfanna er í samræmi við stefnu Landsbankans um virka stýringu á hlutabréfastöðum og áherslu á samþættingu alþjóðlegrar starfsemi bankans.

Hlutabréfin verða seld til alþjóðlegra fagfjárfesta með tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuilding offering). Yfirumsjón með sölunni er í höndum Deutsche Bank (e. book runner) í samvinnu við Carnegie (e. sales agent). Salan er háð því skilyrði að ásættanlegt verð fáist fyrir hlutina að mati Landsbankans.