Landsbankinn í Bandaríkjunum hefur nú óskað eftir greiðslustöðvun þar í landi en áður hafa bæði Glitnir og Kaupþing í Bandaríkjunum farið fram á greiðslustöðvun.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en Landsbankinn óskaði eftir því við gjaldþrotadómstólinn í New York fylki, að samkvæmt 15. kafla bandarísku gjaldþrotalaganna (e. chapter 15), fengi bankinn greiðslustöðvun bankans hér á Íslandi, viðurkennda í Bandaríkjunum.

Reuters hefur eftir Kristni Bjarnasyni, skiptastjóra Landsbankans að einu eigur bankans í Bandaríkjunum séu í formi bankareikninga og skuldabréf auk hlutabréfa sem til stóð að nota í vogunarviðskiptum.

„Markmið Landsbankans er að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kröfuhöfum auk þess að varðveita verðmæti bankans,“ hefur Reuters eftir Kristni.

Þá kemur fram í frétt Reuters að skuldir bankans í Bandaríkjunum nemi um 2,6 milljörðum Bandaríkjadala.

Í frétt Reuters kemur fram að íslenskir bankar hafi á síðustu árum fengið milljarða dali að lána til að fjármagna árásargjarna (e. aggressive) útrás sína, eins og það er orðað í frétt Reuters.