Franska ríkið hafði heimild til þess að leggja hald á peninga sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði lánað viðskiptavinum sínum í umdeildri viðskiptafléttu. Franskir dómstólar komust að þessari niðurstöðu í gær. Fléttan var þannig að bankinn lánaði viðskiptavinum sínum fé með veði í húsnæði þeirra. Hann samdi svo við viðskiptavini sína um að bankinn myndi fjárfesta með þetta sama fé á hlutabréfamörkuðum í umboði þessara sömu viðskiptavina. Þessir viðskiptavinir töpuðu svo miklu fé þegar markaðir hrundu árið 2008.

Lántakendur kvörtuðu yfir viðskiptaháttum bankans og sökuðu hann um að lána viðskiptavinum sínum án þess að kanna greiðslugetu. Saksóknari í Frakklandi ákvað svo að ákæra Landsbankann og þrjá starfsmenn vegna viðskiptanna en auk þess hafa viðskiptavinir höfðað einkamál.

Vegna þessarar málshöfðunar fór saksóknari fram á það árið 2011 að Landsbankinn í Lúxemborg myndi greiða 50 milljónir evra í tryggingu. Þessu mótmælti bankinn og þá fór saksóknari einnig fram á það að skuldir nokkurra lántakenda yrðu frystar. Bankinn mótmælti þeirri ákvörðun og höfðaði mál vegna hennar. Það var það mál sem bankinn var að tapa í gær.

AFP fréttastofan fjallar um þetta.